Körfubolti

NBA í nótt: Utah vann Dallas

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kyle Korver fagnar hér einni körfu sinni í leiknum í nótt.
Kyle Korver fagnar hér einni körfu sinni í leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Þrír leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt þar sem Utah vann góðan sigur á Dallas en New York tapaði enn einum leiknum.

Leikur Utah og Dallas var í járnum þegar sjö mínútur voru til leiksloka en þá skoraði Jason Kidd körfu og kom Dallas í 92-89 forystu. Þá tók hins vegar Utah til sinna mála og komst á 16-0 sprett sem dugði til að innbyrða sigurinn, 116-110.

Deron Williams var með sautján stig og 20 stoðsendingar en stigahæstur var Carlos Boozer með 28 stig. Hjá Dallas var Josh Howard stigahæstur með 25 stig og Dirk Nowitzky bætti við 23.

Utah er með bestan árangur allra liða í deildinni á heimavelli í vetur en liðið hefur unnið 26 leiki og tapað aðeins þremur.

New Orleans vann New York, 100-88, þar sem Chris Paul skoraði 27 stig og skoraði þrjár lykilkörfur undir lok leiksins sem tryggði New Orleans sigurinn í leiknum. Tyson Chandler bætti við fimmtán stigum auk þess sem hann tók átján fráköst.

Hjá New York var Jamal Crawford stigahæstur með 20 stig og Eddy Curry bætti við nítján stigum. Zach Randolph lék ekki með liðinu í nótt vegna meiðsla.

Philadelphia vann LA Clippers, 106-80. Andre Iguodala skoraði átján stig fyrir Philadelphia en fimm aðrir leikmenn liðsins skoruðu tíu stig eða meira í leiknum.

Þetta var tíundi sigur Philadelphia í síðustu þrettán leikjum liðsins sem á í harðri baráttu við New Jersey og Atlanta um sæti í úrslitakeppninni.

Al Thornton var með 20 stig fyrir Clippers sem hafa tapað sex leikjum í röð.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×