Fótbolti

Mourinho og Adriano vinir á ný

Elvar Geir Magnússon skrifar
Adriano er sífellt til vandræða.
Adriano er sífellt til vandræða.

Vandræðagemlingurinn Adriano hefur náð sáttum við þjálfara sinn hjá Inter, Jose Mourinho. Þetta sagði Gilmar Rinaldi, umboðsmaður leikmannsins, í dag.

Adriano hefur ekki verið í leikmannahópi Inter í síðustu tveimur leikjum vegna þess að hann mætti of seint á æfingu. Hann var að skemmta sér á diskóteki í Mílanó nóttina áður og svaf yfir sig.

„Þeir eru búnir að sættast. Adriano mun koma sér aftur í form og verður til taks," sagði Rinaldi við ítalska fjölmiðla í dag. Mourinho sagði sjálfur í viðtali að hann væri ekki búinn að loka hurðinni á hinn 26 ára Adriano sem hefur mikið verið til vandræða utan vallar undanfarin ár.

Sögusagnir hafa verið í gangi um að Adriano væri á barmi þess að yfirgefa Inter og halda á ný heim til Brasilíu. „Það er ekki möguleiki á því. Hann hefur aldrei talað um þetta við mig," sagði Rinaldi.

Adriano var hjá Sao Paolo á lánssamningi síðasta tímabil en Rinaldi segir að efst í huga hans núna sé Inter og hann vilji fá nýjan samning hjá félaginu. „Við erum ekki búnir að ræða við Inter um nýjan samning en það er áætlað," sagði Rinaldi.

Adriano hafði byrjað tímabilið vel undir stjórn Mourinho og skorað þrjú mörk í átta leikjum á Ítalíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×