Fótbolti

Mourinho: Ítalskir fjölmiðlar of hliðhollir Juventus

Ómar Þorgeirsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Nordic photos/AFP

Knattspyrnustjórinn Jose Mourinho hjá Ítalíumeisturum Inter gagnrýnir ítalska fjölmiðla harðlega fyrir að vera of gagnrýnir á Inter en of eftirlátir við Juventus.

Bæði lið hafa gert tvö jafntefli í fyrstu tveimur umferðum riðlakeppni meistaradeildarinnar en Mourinho segir að Inter hafi fengið mun neikvæðari umfjöllun.

„Ég er vissulega meðvitaður um að Inter er ekki búið að vinna síðustu sjö leiki sína í Meistaradeildinni og nú byrjað riðlakeppnina á tveimur jafnteflum. Það er hins vegar látið í fjölmiðlum eins og við séum ekki búnir að vinna í sjötíu síðustu leikjum. Við gerðum jafntefli við Barcelona sem er besta lið í heimi og það þóttu ekki jákvæð úrslit í ítölskum fjölmiðlum.

Á móti kemur þá hefur Juventus ekki unnið síðustu sex leiki sína í Meistaradeildinni og gert jafntefli í síðustu tveimur leikjum sínum. Úrslit leikja þeirra eru hins vegar dásömuð í fjölmiðlum eins og um stórkostlegt listaverk væri um að ræða," segir Mourinho fúll á móti í viðtali við Gazzetta dello Sport.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×