Royal Bank of Scotland (RBS) tapaði einum milljarði punda á fyrstu sex mánuðum ársins. Umtalsverður hagnaður af fjárfestingabankastarfsemi nægði bankanum ekki til að skila hagnaði þar sem afskriftir vegna slæmra lána bankans voru enn meiri. Vonbrigðin eru töluverð þar sem markaðsaðilar höfðu gert ráð fyrir hagnaði hjá bankanum.
RBS, sem er í 70 prósenta eigu ríkisins segir að fleiri slæm uppgjör eigi eftir að fylgja í kjölfarið. Reuters greinir frá þessu í dag.
„Það er ekki til nein töfralausn við þessu ástandi, það mun taka RBS og hagkerfi heimsins nokkur ár í viðbót að koma efnahagslífinu í eðlilegt horf," segir forstjóri bankans, Stephen Hester, og bætir við að um maraþonhlaup sé að ræða en ekki spretthlaup.
Niðurstöðurnar eru mikil vonbrigði en markaðsaðilar höfðu gert ráð fyrir hagnaði hjá bankanum. Hlutabréf í bankanum hækkuðu töluvert dagana áður en niðurstöðurnar voru gerðar opinberar. Þegar niðurstöðurnar lágu fyrir hvarf sú hækkun snögglega.
Í gær greindi Vísir frá því að Seðlabanki Englands hafi ákveðið að setja fimmtíu milljarða punda inn í breskt hagkerfi, með þeim aðgerðum hefur bankinn því sett 175 milljarða punda inn í hagkerfið í þeirri viðleitni að reisa við efnahagslíf landsins.
