Fótbolti

Barcelona vann Meistaradeildina

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Puyol lyftir bikarnum í leikslok.
Puyol lyftir bikarnum í leikslok. Nordic Photos/Getty Images

Barcelona er Evrópumeistari eftir 2-0 sigur á Manchester United í úrslitaleiknum í Róm. Það voru þeir Samuel Eto´o og Lionel Messi sem skoruðu mörk Barcelona í leiknum.

United byrjaði betur en Barca skoraði úr sinni fyrstu sókn. Það slokknaði á United fljótlega eftir það og liðið komst aldrei aftur í gang.

Leiknum var lýst beint á Vísi og má sjá þá lýsingu hér að neðan.

Leik lokið: Barcelona er Evrópumeistari.

90+2. mín: Pedro Rodriguez kemur inn fyrir Iniesta sem átti flottan leik. Eiður Smári fær væntanlega ekki að taka þátt í þessum leik.

90. mín: Þremur mínútum bætt við venjulega leiktíma. Barca er að landa þessu.

87. mín: Berbatov fær kjörið tækifæri til þess að minnka muninn en skalli hans er ævintýralega slakur.

85. mín: United þarf nýtt Nou Camp-ævintýri ef liðið ætlar sér að verja titilinn.

81. mín: Scholes fær gult spjald eftir groddalega tæklingu á Busquets.

78. mín: Ronaldo fær gult spjald. Uppsafnað hjá honum en Portúgalinn er orðinn pirraður eins og fleiri leikmenn United.

75. mín: Scholes kemur inn fyrir Giggs sem gat ekkert í þessum leik.

74. mín: Puyol í fínu færi er hann skallar af stuttu færi. Skallinn fer beint í belginn á Van der Sar. Dekkningin enn að klikka hjá United.

72. mín: United í stórsókn og Ronaldo nálægt því að skora. Tíminn að renna út fyrir Man. Utd.

71. mín: Seydou Keita kemur inn fyrir Henry.

70. mín: Þegar United var að ná tökum á leiknum þá skorar Barcelona aftur. Það gerði Lionel Messi og meira að segja með skalla !!! Xavi með glæsilega sendingu í teiginn, þar var Rio Ferdinand í fuglaskoðun og gætti ekki að Messi sem skallaði auðveldlega í markið. 2-0 fyrir Barcelona.

66. mín: Park fer af velli fyrir Dimitar Berbatov. Park duglegur en skilaði litlu. Berbatov verður örugglega ekki duglegur en vonandi fyrir stuðningsmenn Man. Utd mun hann skila einhverju.

63. mín: Rooney að verða pirraður. Fær lítið boltann til þess að gera Sylvinho lífið leitt.

60. mín: Gengur ekkert hjá United að skapa gegn brothættri vörn Barcelona. Tevez kemst ekki í takt og Rooney og Giggs eru ekki með í leiknum.

56. mín: United er loksins mætt til leiks í síðari hálfleik. Byrja að sækja en markið vantar.

53. mín: Xavi með skot í stöng úr aukaspynu sem var rétt fyrir utan teig. United stálheppið.

51. mín: Messi vill fá víti en ekkert dæmt. Barca að byrja síðari hálfleikinn mun betur.

49. mín: Henry kemst í dauðafæri en Van der Sar ver vel.

46. mín: Ferguson gerir strax breytingu á sínu liði. Hann tekur Anderson af velli og setur Carlos Tevez inn á völlinn.

Hálfleikur: Barcelona leiðir með einu marki í leikhléi. Börsungar áttu síðustu mínútur hálfleiksins og náðu að ógna nokkuð en án þess að skapa sér góð færi. United gaf allt of mikið eftir í hálfleiknum og þarf að girða sig verulega í brók fyrir síðari hálfleik.

41. mín: Sóknarleikur United í molum og menn á hælunum. Barca fer sér í engu óðslega og verst vel.

37. mín: Carles Puyol lætur til sín taka í sókninni enda fær hann að valsa óáreittur hvað eftir annað upp vænginn.

34. mín: Ekki sami kraftur í United og í upphafi leiksins. Vantar meiri hraða, hreyfingu og kraft þessar mínúturnar. Barca með þetta í öruggum höndum eins og er.

30. mín: Rólegt í augnablikinu. United ekki að skapa eins mikið og það var að gera. Börsungar ógna með hraða sínum en vörn United heldur þeim í skefjum.

27. mín: Barcelona fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan teiginn. Xavi tók spyrnuna en hitti ekki markið.

21. mín: Ronaldo heldur áfram að ógna. Enn eitt skotið frá honum en framhjá.

19. mín: Fyrsta lífsmarkið hjá Lionel Messi. Hann fær allt of mikinn tíma fyrir utan teiginn, lætur vaða og skotið rétt yfir.

17. mín: Giggs tók aukaspyrnuna sem fór rétt yfir markið.

15. mín: Fyrsta spjaldið. Pique stöðvar Ronaldo sem fór illa með hann og var að sleppa í gegn. Aukaspyrna á stórhættulegum stað rétt fyrir utan teiginn.

13. mín: Markið hefur eðlilega slegið leikmenn Man. Utd út af laginu. Nú er það Barcelona sem að sækir.

10. mín: Barcelona ekki verið með í leiknum en skorar í sinni fyrstu sókn. Eto´o fær boltann frá Iniesta, leikur á Vidic og skorar með skoti á nærstöng. Þessi byrjun leiksins er lyginni líkust. 1-0 fyrir Barcelona.

9. mín: Ronaldo með skot rétt framhjá í teignum. Barcelona ekki með í leiknum og yfirburðir United algjörir.

7. mín: Ronaldo spilar einn í fremstu víglínu og er gríðarlega einbeittur. Sækir boltann, snýr sér við og lætur vaða af 25 metra færi.

6. mín: Leikurinn róaðist eftir þetta færi. United heldur boltanum vel og stýrir ferðinni. Barcelona hefur ekki enn náð sókn í leiknum.

2. mín: Ronaldo með skot úr aukaspyrnu af 32 metra færi. Valdes heldur ekki boltanum og Barca heppið að United náði ekki frákastinu. Strax stórhætta.

1. mín: Leikurinn er hafinn og það er svakaleg stemning á vellinum í Rómarborg. Draumaúrslitaleikurinn stendur vonandi undir nafni.

Fyrir leik: United leikur í hvítum búningum en Barcelona í sínum hefðbundnu. Sama staða var upp á teningnum þegar liðin mættust í úrslitum Evópukeppnis bikarhafa fyrir hátt í 20 árum síðan. Þá vann United, 2-0, með mörkum frá Mark Hughes. Hann er ekki í leikmannahópi Man. Utd í dag.

Fyrir leik: Mikil skrautsýning í gangi á vellinum á meðan leikmenn standa í göngunum klárir í slaginn. Blindi stórsöngvarinn Andrea Bocelli tekur lagið á meðan það er labbað með bikarinn á út á völlinn. Leikmenn liðanna fylgja í kjölfarið.

Fyrir leik: Sérfræðingar Stöðvar 2 Sport hafa spáð í leikinn. Tómas Ingi Tómasson spáir 3-2 fyrir Man. Utd. Heimir Guðjónsson segir að staðan verði 2-2 eftir venjulegan leiktíma, 3-3 eftir framlengingu og að Valdes klári svo leikinn í vítakeppninni fyrir Barcelona.

Fyrir leik: 1-0 fyrir United. Leikmenn United mættu á staðinn í glæsilegum jakkafötum á meðan leikmenn Barca mættu í póló-bolum. Meiri klassi yfir United þar og þeir fá fyrsta stig kvöldsins.

Fyrir leik: Cristiano Ronaldo hefur átt flest skot allra leikmanna í Meistaradeildinni á markið sem og framhjá markinu. United hefur fengið fæst mörk allra liða á sig í keppninni, 6, og margir spá því að úrslit leiksins ráðist á því hversu vel vörn United mun standa sig.

Fyrir leik: Frakkinn Marcel Desailly spáir Barcelona sigri. Hann segir að Barca hafi eitthvað aukalega til þess að klára þennan leik.

Fyrir leik: Eiður Smári er í leikmannahópi Barcelona í kvöld og byrjar á bekknum. Hann fær vonandi til þess að spreyta sig og yrði um leið fyrsti Íslendingurinn til þess að taka þátt í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Fyrir leik: Allir leikmennirnir sem voru tæpir eru með og í byrjunarliðinu. Það er Rio Ferdinand hjá Man. Utd og svo þeir Henry og Iniesta hjá Barcelona.

Byrjunarlið Man. Utd: Van der Sar, Evra, Ferdinand, Ronaldo, Anderson, Rooney, Giggs, Park, Vidic, Carrick, O´Shea.

Byrjunarlið Barcelona: Valdes, Pique, Puyol, Xavi, Iniesta, Eto´o, Messi, Henry, Sylvinho, Toure, Busquets.






































































































Fleiri fréttir

Sjá meira


×