SKY fréttastofan segir frá því að fyrrverandi eigendur Birmingham, David Gold og David Sullivan hafa gert 50 milljóna punda tilboð í West Ham.
Samkvæmt tilboðinu mun aðeins hluti fjárins fara til CB Holding, íslenska eignarhaldsfélagsins um West Ham, afgangurinn fari í skuldir og til leikmannakaupa. Fleiri tilboð ku vera á borðinu en ákvörðun verður tekin hér á landi á föstudag.
Aðrir breskir fjölmiðlar fjalla einnig um málið í morgun. Fram kemur í blaðinu Independent að líklega verði þessu tilboði hafnað. Það rímar nokkuð við það sem forráðamenn Straums hafa gefið til kynna. Þeir vilja fá 80 milljónir punda fyrir West Ham.
Í Daily Mirror segir að innifalið sé í tilboðinu, fyrir utan 50 milljón pundin, að West Ham fái 25 milljónir punda til leikmannakaupa þegar glugginn til þeirra opnast nú í janúar.