Fótbolti

Þak hrundi ofan á gesti í kirkju Kaka

Kaka er strangtrúaður
Kaka er strangtrúaður NordicPhotos/GettyImages

Í það minnsta sjö manns létust og fimmtíu slösuðust þegar þak á kirkju í Sao Paolo í Brasilíu hrundi ofan á kirkjugesti í gærkvöld.

Kirkjan, sem kölluð er kirkja hinna endurfæddu í kristi, tók 2000 manns í sæti og hefur verið mjög þétt setin frá því hún var sett á laggirnar árið 1986.

Hún er líklega þekktust fyrir að hafa hýst brúðkaup umtalaðasta knattspyrnumanns heimsins í dag, Brasilíumannsins Kaka, árið 2005.

Það þykir lán í óláni að aðeins um 60 manns voru inni í kirkjunni þegar þakið hrundi en slökkviliðsmenn eru enn að störfum í rústunum.

Fyrirhuguð kaup Manchester City á Kaka frá AC Milan á Ítalíu hafa vakið heimsathygli undanfarna daga, því forríkir eigendur City munu tilbúnir að greiða yfir 100 milljónir punda fyrir kappann.

Þetta óhóf hefur vakið hörð viðbrögð margra, ekki síst í ljósi þeirrar kreppu sem nú vofir yfir heimsbyggðinni.

Kaka er mjög trúaður maður og einhverjir gætu ef til vill spurt sig hvernig honum er innan brjóst að fá svona fréttir nú þegar hann þarf að velja eða hafna milljarðatilboði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×