Fótbolti

Harðkjarnastuðningsmenn Lazio mótmæltu slöku gengi liðsins

Ómar Þorgeirsson skrifar
Stuðningsmenn Lazio.
Stuðningsmenn Lazio. Nordic photos/AFP

Tvö hundruð manna hópur af svokölluðum „Irriducibili Ultras" harðkjarnastuðningsmönnum ítalska félagsins Lazio stóðu fyrir mótmælaaðgerðum fyrir utan æfingarsvæði félagsins í gær.

Ástæða þess að stuðningsmennirnir voru að mótmæla er slakt gengi liðsins en Lazio er í fimmtánda sæti Serie A-deildarinnar og hefur aðeins unnið tvo af fyrstu níu leikjum sínum í deildinni til þessa.

Sprengjum og blysum var kastað að æfingarsvæðinu og knattspyrnustjórinn Davide Ballardini neyddist því til þess að stoppa æfingu liðsins. Lögregla mætti á svæðið og náði fljótlega að skakka leikinn þannig að engum var meint að.

Atvikið kemur í kjölfar þess að Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, gagnrýndi þessa svokölluðu Ultras-hópa á málþingi á dögunum og sagði að knattspyrnusamband Ítalíu gerði ekki nægilega mikið til þess að halda aftur af þeim.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×