Breska matvöruverslunin Tesco hefur brugðið á það ráð að koma á fót eigin veðurteymi sem aðlagar birgðahald fyrirtækisins að breyttu veðurfari á Bretlandi.
Forráðamenn fyrirtækisins telja að með slíku teymi geti sparast hundruðir þúsunda punda með því að samræma framboð við eftirspurn hverju sinni segir í grein á Retail Week.
Tölfræðisérfræðingar hafa á undanförnum þremur árum rannsakað kauphneigð neytenda með tilliti til veðurfars á tólf mismunandi landsvæðum á Bretlandi. Þar rannsökuðu þeir breytingar á sölu við mismunandi hitastig og sólskinsstundir.
Niðurstöðurnar koma ekki mikið á óvart. Með 10ºC hækkun á hitastigi eykst sala á kjöti, maríneruðu í barbecue sósu um 300 prósent og 50 prósent aukning verður í sölu á grænum salatblöðum í verslunum Tesco.
Hins vegar eykst sala á súpu og spergilkáli við lækkandi hitastig
Forsvarsmenn Tesco telja að héðan í frá munu verslunarstjórar fyrirtækisins vera betur í stakk búnir til að setja réttar vörur í hillurnar í samræmi við það veðurfar sem ríkir hverju sinni.
