Fótbolti

Kominn tími til þess að einblína á fótboltann

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Það hefur heldur betur gustað um Inter síðan Rafa Benitez tók við stjórnartaumunum hjá félaginu. Hann hefur gert sitt besta til þess að forðast allan samanburð við José Mourinho en það hefur gengið illa.

Benitez hefur verið að rífast við Mourinho í fjölmiðlum síðustu vikur og gengið innan vallar hefur ekkert hjálpað honum. Hann ætlar að breyta miklu af því sem Mourinho gerði og margir óttast að hann muni slátra öllu því góða sem Mourinho kom í verk hjá félaginu.

Spánverjinn er þegar orðinn þreyttur á öllu dramanu í kringum sjálfan sig og liðið. Hann vill að fólk fari nú að einbeita sér að sjálfum fótboltanum. Inter á leik gegn Roma á morgun, leikur sem skiptir bæði lið miklu máli.

"Ég held að þetta sé leikurinn þar sem við fáum að sjá góða dómgæslu. Ég hef alltaf verið hrifinn af ítölskum dómurum. Við viljum spila fótbolta með góðri dómgæslu. Það er kominn tími til þess að einblína á fótboltann en ekki eitthvað annað," sagði Benitez og setti um leið pressu á dómara leiksins.

Claudio Ranieri gæti verið rekinn frá Roma ef liðið tapar leiknum.

"Hann er reyndur og góður þjálfari. Ég óska honum alls hins besta eftir leikinn gegn okkur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×