Janúar var annar mánuðurinn í röð þar sem atvinnulausum fækkar í Danmörku. Steen Bocian aðalhagfræðingur Danske Bank segir að tölurnar í janúar séu „gleðilegustu tíðindi ársins". Bocian bætir því við að fækkun atvinnulausra tvo mánuði í röð séu teikn um að vinnumarkaðurinn sé að ná sér á ný.
Sjálfur hafði Danske Bank reiknað með því að atvinnulausum myndi fjölga um 3.600 í janúar og ná tölunni 125.000. „Þessi þróun kemur okkur því verulega á óvart," segir Bocian í samtali við börsen.dk.
Aðrir sérfræðingar eru ekki eins hrifnir og Bocian. Þannig segir Helge J. Pedersen aðalhagfræðingur Nordea Markets að enn sem komið er hafi Danir aðeins séð toppinn af ísjakanum hvað atvinnuleysi varðar. Pedersen segir að atvinnuleysi muni fara vaxandi á þessu ári eftir því sem fyrirtæki landsins aðlagi rekstur sinn betur að stöðunni. Pedersen á ekki von á að atvinnuleysistölur breytist til hins betra að ráði fyrr en á næsta ári.