Fótbolti

Adriano ætlaði að fremja sjálfsmorð

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Brasilíumaðurinn Adriano er gott dæmi um mann sem höndlar ekki velgengni. Allir peningarnir og ljúfa lífið hjálpuðu honum ekki að verða að betri manni.

Hann tók upp á því að drekka hraustlega og var afar þunglyndur er hann lék með Inter. Á endanum flúði hann Ítalíu og fór heim til Brasilíu.

Móðir leikmannsins, Rosilda, segir við ítalska fjölmiðla í dag að sonur hennar hafi verið í sjálfsmorðshugleiðingum og hafi ekki verið fjarri því að taka eigið líf.

Sem betur fer sleppti hann því og hann er núna kominn aftur til Ítalíu þar sem hann leikur með Roma.

"Hann á eftir að gera það gott. Hann mun vinna þessa baráttu. Bæði hann og Roma eiga eftir að koma fólki á óvart," sagði Rosilda.

"Þegar hann var þunglyndur þá var hann mikið gagnrýndur en enginn vissi hvað hann var að ganga i gegnum. Hann var einnig nýbúinn að missa föður sinn. Það var skelfilegt að fylgjast með þessu og ég vissi ekki hvernig ég átti að hjálpa honum. Hann játaði fyrir mér að hann vildi drepa sig.

"Ég sagði honum að hlusta á hjartað og ef það þýddi að hætta í fótbolta yrði svo að vera. Hann er nýr maður í dag."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×