Fótbolti

Liðsfélagi Gylfa hjá Hoffenheim má ekki mæta á æfingar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Josip Simunic á bekknum.
Josip Simunic á bekknum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Króatíski varnarmaðurinn Josip Simunic hjá Hoffenheim hefur fengið skýr fyrirmæli frá forráðamönnum félagsins að hann megi ekki lengur mæta á æfingar liðsins. Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson spilar einmitt með þýska liðinu.

Simunic er 33 ára gamall króatískur landsliðsmaður sem hefur spilað með Hoffenheim frá árinu 2009 en áður lék hann með Hertha BSC í níu ár. Hann þarf nú að æfa einn en samningur hans við félagið rennur út í júní á næsta ári.

„Josip verður fyrst að ná sér hundrað prósent af vöðvatognun sinni áður en hann mætir á æfingar hjá okkur. Við töluðum líka um það að við hann að við séum ekki ánægðir með hugarfar hans á þessu tímabili," sagði Marco Pezzaiuoli, þjálfari Hoffenheim, á heimasíðu félagsins.

Simunic hefur aðeins verið í byrjunarliðinu í sjö leikjum á þessu tímabili og hann verður ekki í leikmannahópnum á morgun á móti Borussia Moenchengladbach. Ástæðan er sögð vera vöðvatognun í læri en það er hægt að lesa á milli línanna að það sé eitthvað meira í ólagi hjá leikmanninum en tognun í vöðva.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×