Fótbolti

David Villa hljóp til Pepe Reina þegar hann bætti markamet Raul

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Villa sló í gær markamet Raul með spænska landsliðinu þegar hann skoraði sitt 45. og 46. mark fyrir landsliðið og tryggði liðinu 2-1 sigur á Tékkum í undankeppni EM. Villa náði þessu í sínum 72. landsleik en Raul skoraði á sínum tíma 44 mörk í 102 landsleikjum.

Það vakti athygli að þegar David Villa skoraði fyrra markið sitt í leiknum, og jafnaði leikinn í 1-1, þá hlóp hann beint til Pepe Reina, varamarkvarðar spænska landsliðsins og aðalmarkvarðar Liverpool. Það má sjá markið með því að smella á myndbandið hér fyrir ofan.

„Ég lofaði Pepe, sem er vinur minn, að ég myndi tileinka honum markið sem myndi bæta met Raul. Ég fór því yfir til hans og stóð við mitt loforð," sagði David Villa.

„Mig langaði virkilega í metið og ekki síst þar sem að þetta var erfiður leikur og við höfðum ekki byrjað eins vel og við ætluðum okkur," sagði David Villa en þetta var tíundi sigurleikur Spánar í röð í keppnisleik.

Það er athyglisvert að skoða það að David Villa hefur skorað 33 af 46 mörkum sínum í alvörulandsleikjum en aðeins þrettán þeirra hafa komið í vináttulandsleikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×