Fótbolti

Villas-Boas tekur ekki við Inter

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Villas-Boas hefur verið líkt við landa sinn Jose Mourinho
Villas-Boas hefur verið líkt við landa sinn Jose Mourinho Mynd/Nordic Photos/Getty
Ítalska knattspyrnufélagið Inter hefur útilokað Andre Villas-Boas sem næsta knattspyrnustjóra félagsins. Félagið er í leit að knattspyrnustjóra eftir að Leonardo yfirgaf félagið eftir aðeins sex mánuði í starfi.

Leonardo hefur tekið við starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá fyrrum félagi sínu Paris Saint Germain í Frakklandi. Brasilíumaðurinn stýrði Inter síðari hluta nýliðins tímabils eftir að Spánverjanum Rafa Benitez var sagt upp.

„Villas-Boas verður ekki næsti stjóri Inter,“ sagði Marco Branca hjá Inter við ANSA fréttastofuna.

„Hann er samningsbundinn Porto og þó að það sé ákvæði í samningnum um að hann megi fara fyrir ákveðna upphæð er sú upphæð allt of há. Það er þó ekki eina ástæða þess að hann verður ekki næsti knattspyrnustjóri Inter,“ bætti Branca við.

Auk Villas-Boas hefur Sinisa Mihajlovic líst því yfir að hann vilji vera áfram hjá Fiorentina.

Á síðustu leiktíð vildi Fiorentina fá mig og ég valdi þá þrátt fyrir aðra möguleika. Ég er ánægður með þá ákvörðun sem gerði mér kleyft að starfa hjá félagi með fagmenn og klárt fólk innanborðs.

Inter vann ítalska bikarinn á síðasta tímabili en missti meistaratitilinn úr hendi sinni til erkifjendanna í AC Milan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×