Fótbolti

Bayern München, Dinamo Zagreb, Genk og APOEL komust áfram

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gomez, Ribery og Muller fagna marki þess fyrstnefnda í kvöld.
Gomez, Ribery og Muller fagna marki þess fyrstnefnda í kvöld. Nordic Photos/AFP
Þýska stórveldið Bayern München er komið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu eftir 1-0 útisigur á FC Zürich frá Sviss. APOEL Nicosia og Dinamo Zagreb eru sömuleiðis komin í riðlakeppnina.

Markahrókurinn Mario Gomez skoraði eina mark leiksins strax á 7. mínútu og gerði endanlega út um vonir Svisslendinganna.

Malmö FF frá Svíþjóð vann 2-0 heimasigur á Dinamo Zagreb frá Króatíu. Sigurinn dugði þó ekki til því Króatarnir unnu fyrri leikinn 4-1 og fara áfram samanlagt 4-3.

Á Kýpur tryggði APOEL Nicosia sér sæti í riðlakeppninni með 3-1 sigri á pólska liðinu Wisla Krakow. Pólverjarnir unnu fyrri viðureignina 1-0 og Kýpverjarnir því áfram 3-2 samanlagt. Brasilíumaðurinn Aílton skoraði tvö marka APOEL.

Racing Genk frá Belgíu hafði sigur á Maccabi Haifa frá Ísrael eftir vítaspyrnukeppni í síðari viðureigninni í kvöld. Genk var 2-1 að loknum venjulegum leiktíma en Maccabi vann fyrri leikinn með sama mun. Því þurfti að framlengja leikinn þar sem hvorugu liðinu tókst að skora.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×