Enski boltinn

Joe Cole: Ætla spila mig inn í enska landsliðið hjá Lille

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Cole.
Joe Cole. Mynd/Nordic Photos/Getty
Joe Cole ætlar að spila sig aftur inn í enska landsliðið en hann er á láni hjá frönsku meisturunum Lille eftir að Liverpool vildi ekkert með hann hafa. Cole sem er 29 ára gamall fékk aðeins níu byrjunarliðsleiki hjá Liverpool á síðustu leiktíð.

„Ég hef unnið allt á Englandi og á að baki mjög farsælan feril. Ég þarf bara tíu leiki til að komast í mitt besta form og ég sé enga ástæðu fyrir því að ég komist ekki aftur í enska landsliðið," sagði Joe Cole í viðtali við BBC.

Joe Cole sagðist ennfremur ekki sjá eftir félagsskiptum sínum frá Chelsea til Liverpool en Cole fékk rautt spjald í fyrsta leik og við tók margra mánaða þrautarganga hans á Anfield.

Joe Cole verður á fullu í Meistaradeildinni ólíkt fyrrum félögum sínum hjá Liverpool. Lille er þar í riðli með Inter Milan, CSKA Moskvu og Trabzonspor.

Lille mætir St Etienne á útivelli í frönsku deildinni á laugardaginn og þar getur Cole spilað sinn fyrsta leik með félaginu. Nokkrum dögum síðar fær Lille síðan CSKA Mokskvu í heimsókn í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×