Fótbolti

Gylfi Þór: Klikka ekki aftur á svona færi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór í leiknum gegn Wolfsburg.
Gylfi Þór í leiknum gegn Wolfsburg. Nordic Photos / Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson er í viðtali hjá Rhein-Neckar Zeitung í Þýskalandi þar sem hann tjáir sig um fyrsta leikinn sinn á tímabilinu eftir meiðsli.

Gylfi Þór var óvænt í byrjunarliði Hoffenheim um helgina er liðið vann 3-1 sigur á Wolfsburg. Hann hafði verið frá í alls átta vikur vegna meiðsla og spilaði í rúman klukktíma í leiknum.

Hann átti þátt í einu marki sinna manna en klúðraði svo dauðafæri skömmu áður en hann fór út af.

„Ég var frekar ryðgaður,“ sagði Gylfi í viðtalinu. „En það var gott fyrir mig að fá þennan leik. Vikan á undan leiknum var mjög góð og þess vegna var ég bæði þreyttur og ánægður eftir leikinn.“

„Gylfi hefur nú æft með liðinu í tvær vikur og það var mikilvægt að fá að sjá hversu langt hann er kominn. Hann gerði margt gott í leiknum, var ákafur og hljóp mikið. Hann getur þó enn bætt sig mikið, sem er mikilvægt,“ sagði Holger Stanislawski, stjóri Hoffenheim.

Um færið sem hann fékk sagði hann: „Venjulega nýti ég svona færi. En þetta var fyrsta færið mitt í átta vikur.“

Það sást langar leiðir að Gylfi var afar svekktur út í sjálfan sig eftir klúðrið. „Ég hugsaði með mér að með þessu marki hefðum við getað tryggt okkur sigur í þessum leik. Ég þurfti að skora,“ sagði Gylfi. „Ég ætla að æfa þetta sérstaklega í vikunni. Ég klikka ekki aftur á svona færi.“

„Auðvitað á hann að gera betur enda nýtir hann yfirleitt svona færi í svefni,“ sagði Stanislawski.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×