Enski boltinn

Yaya Toure: Man. City liðið fullorðnaðist eftir kvöldið í München

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yaya Toure.
Yaya Toure. Mynd/Nordic Photos/Getty
Yaya Toure og félagar í Manchester City hafa verið í miklum ham síðustu vikur og eru búnir að vinna átta leiki í röð síðan að liðið fór til München í lok september. Toure segir Meistaradeildarleikinn í München og atburðina eftir hann hafa verið þroskandi fyrir liðið.

Manchester City tapaði sannfærandi 0-2 fyrir Bayern München í þessum leik en mesta athygli vakti þó að Carlos Tevez neitaði að hlýða stjóranum Roberto Mancini.

„Þetta var mjög mikilvægur leikur fyrir okkur, afar mikilvægur. Við vorum búnir að vinna Tottenham og nokkur önnur lið og þetta var góður tími til að mæta Bayern," sagði Yaya Toure.

„Þeir eru með sterkt lið og lið sem hefur mikla reynslu úr Meistaradeildinni. Við lærðum mikið af þessu tapi og í raun gaf það okkur mikið sjálfstraust," sagði Yaya Toure og viðurkenndi að Tevez-málið hafi haft áhrif á leikmannahópinn.

„Það var snúningpunktur fyrir okkur. Við vitum ekki enn alveg hvað var í gangi en það mikilvægasta frá þessu kvöldi var að liðið fullorðnaðist," sagði Toure.

„Það vita allir að Carlos Tevez er frábær leikmaður og mjög góður fyrirliði. Við höfum samt staðið okkur vel án hans. Klúbburinn mun síðan ákveða hver framtíð Tevez verður," sagði Toure.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×