Enski boltinn

AC Milan byrjað að tala við umboðsmann Tevez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez er i faðmi fjölskyldunnar í Argentínu.
Carlos Tevez er i faðmi fjölskyldunnar í Argentínu. Mynd/AFP
Ítalskir fjölmiðlar hafa heimildir fyrir því að forráðamenn AC Milan séu farnir að vinna markvisst að því fá Carlos Tevez til liðsins eftir áramót. Tevez hefur skrópað á allar æfingar hjá Manchester City að undanförnu og heldur sig hjá fjölskyldu sinni í Argentínu.

Kia Joorabchian, umboðsmaður  Carlos Tevez, hitti Adriano Galliani, framkvæmdastjóra AC Milan í dag og þar hafa þeir væntanlega rætt samning Tevez sem er svo eins og flestir vita vanur því að vera á ofurlaunum.

Tevez heimtaði að vera seldur síðasta sumar og neitaði síðan að hita upp fyrir Meistaradeildarleik á móti Bayern München í lok september. Argentínski framherjinn sem var fyrirliði City á síðasta tímabili, hefur ekki spilað með Manchester City síðan allt fór á annan endann í München.

AC Milan er að leita að manni fyrir ítalska landsliðsmanninn Antonio Cassano sem þurfti að gangast undir hjartaaðferð á dögunum og verður ekkert meira með á tímabilinu.

Manchester City mun örugglega selja Carlos Tevez í janúar enda í góðum málum með þá Edin Dzeko, Mario Balotelli, Sergio Aguero og David Silva í flottu formi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×