Kína er orðinn stærsti markaður heims fyrir snjallsíma með um 24 milljónir pantana inn á markað á meðan Bandaríkin voru á sama tíma með 23 milljónir. Frá þessu er greint á vefsíðu breska ríkisútvarpsins BBC í kvöld.
Sérstaklega eru það ódýrar útgáfur af símum sem styðjast við Android stýrikerfið frá Google sem hafa selst vel á kínverskum markaði. Stærsti einstaki aðilinn á kínverskum markaði er Nokia með um 28% markaðshlutdeild á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Nokia hefur þrátt fyrir gott gengi í Kína verið að draga saman seglin og tilkynnti í dag um að fyrirtækið hygðist fækka starfsmönnum um 17 þúsund á heimsvísu.
Kína orðinn stærsti snjallsímamarkaður heims
