Fótbolti

Wolfsburg setur tvo leikmenn í agabann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pierre Littbarski, stjóri Wolfsburg.
Pierre Littbarski, stjóri Wolfsburg. Nordic Photos / Bongarts
Wolfsburg, félag Eyjólfs Sverrissonar, hefur ákveðið að setja tvo leikmann félagsins í agabann og víkja þeim tímabundið úr aðalliðinu.

Leikmennirnir sem um ræðir eru þeir Alexander Madlung og Daninn Thomas Kahlenberg.

Pierre Littbarski, stjóri Wolfsburg, staðfesti þetta í samtali við þýska fjölmiðla en sagði ekki hvað þeir félagar gerðu af sér.

„Ég sagði þeim að lið í okkar stöðu hefur ekki efni á því að vera með leikmenn innanborðs sem eru ekki 100 prósent einbeittir og eru á sömu blaðsíðu og allir aðrir. Ég hef það á tilfinningu að það eigi ekki við um þá," sagði Littbarski við þýska fjölmiðla.

Brasilíumaðurinn Diego var nýlega settur í agabann af liðinu fyrir að óhlýðnast Steve McClaren sem nýlega var rekinn sem stjóri liðsins.

Littbarski tók við starfinu og ákvað að halda banninu til streitu.

Eyjólfur Sverrisson var fyrir skömmu ráðinn aðstoðarmaður Littbarski.+






Fleiri fréttir

Sjá meira


×