Fótbolti

Mourinho segir tapið engu skipta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid.
Jose Mourinho, stjóri Real Madrid. Nordic Photos / AFP
Real Madrid tapaði í gær fyrir Levante, 2-0, í spænsku bikarkeppninni en stjóri liðsins, Jose Mourinho, segir það engu máli skipta.

Real vann fyrri viðureign liðanna 8-0 og því samanlagt 8-2.

„Ég get ekki gagnrýnt liðið fyrir frammistöðuna í þessum leik," sagði Mourinho. „Ég vissi vel að þetta yrði erfiður leikur en við sýndum honum ekki nógu mikla athygli."

„Það er alltaf erfitt að koma leikmönnum í rétta gírinn en ég tel að það sé ekki hægt að gagnrýna þá nú þar sem viðhorf þeirra var jákvætt."

„Það leit út fyrir að leiknum myndi ljúka með markalausu jafntefli en Levante vann leikinn sem er gott fyrir þá. Leikmenn liðsins börðust fyrir sigrinum og áttu hann skilið. Nú mætum við næst Atletico Madrid og verður það erfiður leikur."

Brasilíumaðurinn Kaka hefur verið að jafna sig á meiðslum að undanförnu og kom inn á sem varamaður í gær.

„Kaka hefur verið að fá fleiri mínútur inn á vellinum og það er gott fyrir liðið. Það jákvæða er að hann á í engum vandræðum með hnéð sitt eftir leikina."

„Það er því fullvíst að hann muni spila í næsta leik okkar, gegn Villarreal, um helgina. Áhorfendur á Bernabeu munu aftur fá að sjá að hann er einn af bestu leikmönnum heimsins."

„Við höfðum kannski efni á að tapa þessum leik en við megum alls ekki tapa þeim næsta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×