Fótbolti

Real Madrid og Barcelona gætu mæst í úrslitum í fyrsta sinn í 21 ár

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Síðari viðureignirnar í undanúrslitum spænska konungsbikarsins í knattspyrnu fara fram í kvöld. Allt útlit er fyrir að stórliðin og erkifjendurnir Barcelona og Real Madrid muni mætast í úrslitum í fyrsta sinn í 21 ár.

Barcelona mætir Almeria á Nývangi en fyrri leiknum lauk með 5-0 sigri Börsunga. Meiri spenna verður á Bernabeu þar sem lærisveinar Jose Mourinho í Real Madrid taka á móti Sevilla. Fyrri leiknum lauk með 1-0 sigri Real en leikurinn einkenndist af mikilli baráttu innan vallar sem utan. Níu leikmenn voru áminntir auk þess sem aðskotahlut var kastað í Iker Casillas markvörð Madridinga undir lok leiksins.

Bæði lið og þá sérstaklega Real hafa lent í vandræðum gegn minni liðum í bikarnum á undanförnum árum. Skemmst er að minnast þegar liðið datt út úr keppninni á síðasta ári gegn smáliði AD Alcorcon frá samnefndum nágrannabæ við Madrid.

Eftir tap gegn Osasuna um nýliðna helgi eru liðsmenn Jose Mourinho sjö stigum á eftir toppliði Barcelona í deildinni. Það má því ætla að Mourinho leggi mikla áherslu á bikarinn en liðið hefur ekki unnið titil heimafyrir síðan þeir unnu deildina árið 2008. Konungsbikarinn hafa þeir ekki unnið síðan 1993.

Þegar liðin mættust í úrslitum árið 1990 unnu Barcelona 2-0 sigur með mörkum Guillermo Amor og Julio Salinas, eins og sjá má með því að smella á hlekkinn hér efst í fréttinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×