Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, birti í gær yfirlýsingu á vefsvæði sínu þar sem hann lýsti andstöðu sinni á tveimur frumvörpum sem eiga að tryggja hugverkarétt á netinu.
Hann hefur nú bæst í hóp margra annara sem mótmæla frumvörpunum, sem bera heitið SOPA og PIPA, en á meðal þeirra sem hafa mótmælt þeim eru Youtube, Wikipedia og Google. Wikipedia lokaði síðunni sinni í gær í 24 klukkustundir í mótmælaskyni.
Stofnandinn er nú búinn að fá um 500 þúsund „Like" á stöðuuppfærsluna en margir hafa bent á að yfirlýsing Zuckerbergs sé í orði en ekki á borði. Því ef Facebook væri virkilega á móti frumvörpunum mynu þeir fara sömu leið og Wikipedia og fjölmargar aðrar síður, og loka Facebook í einn dag í mótmælaskyni.
Margir hafa bent á að Facebook geti ekki lokað síðunni því það myndi þýða of mikið tap fyrir fyrirtækið. Facebook þénaði um 4,25 milljarða dala á síðasta ári, af því má leiða að fyrirtækið tapi um 12 milljónum dollara á einum tekjulausum degi. Auk þess yrðu auglýsendur sem hafa borgað auglýsingar á síðuna fram í tíman ekki sáttir.
Mótmæli Facebook máttlaus - afhverju loka þeir ekki síðunni í einn dag?
