Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Njarðvík 56-74 | Njarðvík leiðir 2-0

Stefán Árni Pálsson á Ásvöllum skrifar
Njarðvík vann öruggan sigur, 74-56, á Haukum í öðrum leik liðana um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta og leiða því einvígið 2-0.

Njarðvíkingar voru sterkari aðilinn lengst af í fyrri hálfleiknum en leikurinn var allan tímann virkilega spennandi.

Shanae Baker-Brice, leikmaður Njarðvíkur, fór á kostum í fyrri hálfleiknum og gerði 15 stig eða tæplega helmingur allra stiga Njarðvíkinga í hálfleiknum.

Þegar leið á hálfleikinn komust Haukar meira og meira í takt við leikinn og aðeins munaði einu stigi á liðunum þegar stelpurnar gengu til búningsherbergja.

Í síðari hálfleiknum var í raun aðeins eitt lið inná vellinum og það voru gestirnir frá Njarðvík. Shanae Baker-Brice stjórnaði leiknum eins og herforingi og Lele Hardy átti gjörsamlega frákastabaráttuna undir körfunni.

Hardy tók 20 fráköst í leiknum auk þess sem hún skoraði 18 stig. Baker-Brice gerði 27 stig fyrir Njarðvík í leiknum.

Njarðvík vann að lokum 18 stiga sigur 74-56 og eru komnar með átta putta á titilinn en leikur þrjú fer fram næstkomandi miðvikudag í Njarðvík.

Sverrir: Þetta er alls ekki komið hjá okkur

„Það er flott að vera komnar í 2-0 en þetta er samt sem áður engan vegið búið," sagði Sverrir Sverrisson, þjálfari Hauka, eftir sigurinn í dag.

„Það þarf að vinna þrjá leiki og við megum alls ekki fara fagna þessum titli of snemma. Lið hafa oft brennt sig á því að halda að einvígi séu búinn þegar þú kemst í 2-0, þannig hugsunarháttur má ekki koma upp hjá okkur."

„Þegar maður er komin svona langt í úrslitakeppni og er að berjast við eins sterkt lið og Haukar eru þá er ekkert gefins. Við verðum að mæta alveg 100% í næsta leik í Njarðvík."

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu við Sverri hér að ofan.

Bjarni: Þurfum að hafa trú á því að þetta sé hægt

„Þetta er ekki staðan sem við ætluðum að koma okkur í dag," sagði Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, eftir tapið.

„Við getum bara sjálfum okkur um kennt og engum öðrum. Við vorum auðvita að spila á móti hörku liði en mér finnst við eiga mun meira inni en þetta."

„Við þurfum fyrst og fremst að bæta hugarfarið hjá okkur. Liðið verður að hafa trú á því sem það er að gera. Við erum varla sáttar með það eitt að hafa komist í úrslit."

„Við eigum eftir að mæta grimmar í næsta leik í Njarðvík og við erum staðráðnar í því að spila annan leik í þessu húsi."

Hægt er að sjá viðtalið með því að ýta hér.



Hér að neðan má lesa textalýsinguna sem var á meðan leik stóð.

Fyrir leik: Það er allt klárt hér í Hafnafirðinum og leikurinn við það að hefjast.

1. leikhluti: Heimastúlkur eru ákveðnari til að byrja með og leiða 9-7.

1. leikhluti: Njarðvíkurstúlkur eru komnar af stað og hafa tekið völdin á vellinum. Staðan er 17-12 fyrir þeim grænu.

2. leikhluti: Virkilega spennandi leikur hér í Hafnafirðinum en staðan er 24-22 fyrir Njarðvíkurstúlkur.

2.leikhluti: Shanae Baker-Brice hefur farið mikinn fyrir gestina til að byrja með og hefur skoraði 12 stig. Staðan er 26-22 fyrir Njarðvík.

2. leikhluti: Jafnt á öllum tölum en Haukastúlkur hafa verið að sækja í sig veðrið undanfarið. Hálfleikur og staðan er 31-30 fyrir Njarðvík.

3. leikhluti: Haukar byrja síðari hálfleikinn vel og hafa eins stig forystu 36-35. Boltinn er farinn að ganga betur á milli leikmanna og þær þurfa hafa minna fyrir hverju stigi.

3. leikhluti: Heimastúlkur hafa enn eins stigs forystu 40-39 en það er nokkuð ljóst að þessi leikur verður jafn til enda.

3. leikhluti: Ingibjörg Vilbergsdóttir var að setja niður risa þrist fyrir Njarðvík og kemur gestunum fimm stigum yfir 47-42. Þriðja leikhlutanum er að ljúka.

3. leikhluti: Staðan er 47-44 fyrir Njarðvík eftir þrjá leikhluta. Spennan verður svakaleg í þeim fjórða.

4. leikhluti: Fínt áhlaup hjá Haukum og þær eru komnar yfir 50-49.

4. leikhluti: Það varði ekki lengi hjá Haukum. Njarðvík er komið yfir á ný 53-50 og fimm mínútur eftir.

4. leikhluti: Það er spurning hvort Njarðvík sé að klára leikinn núna. Staðan er 58-50 og fjórar mínútur eftir. Það gengur lítið upp hjá heimastúlkum þessa stundina.

4. leikhluti: Petrúnella Skúla var að negla niður þristi fyrir Njarðvík. Staðan er 63-53, þetta verður erfitt fyrir heimastúlkur héðan af. 3 mínútur eftir.

4. leikhluti: Þetta er búið. Staðan er 65-53 fyrir Njarðvík og ein og hálf mínútu eftir af leiknum.

Leik lokið: Njarðvík er komið í 2-0 í einvíginu og þurfa því aðeins ein sigur til viðbótar til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Leiknum lauk með 74-56 sigri Njarðvíkinga.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×