Handbolti

Þjálfari ÍBV: Dómarinn angaði af áfengisfýlu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Svavar Vignisson, þjálfari ÍBV.
Svavar Vignisson, þjálfari ÍBV. Mynd/ Eyjafrettir.is
„Þetta var mjög svekkjandi tap," sagði Svavar Vignisson, þjálfari ÍBV, í viðtali við vefsíðuna sport.is eftir að lið hans hafði tapað gegn Gróttu í öðrum leik liðanna um laust sæti í undanúrslitum N1-deildar kvenna í gær.

Staðan í einvíginu er 1-1 og því þarf oddaleik í Vestmannaeyjum til að skera út um hvort lið komist í undanúrslit.

Svavar ber dómurum leiksins ekki góðar kveðjur og beinir spjótum sínaum aðallega að öðrum þeirra. Í umræddu viðtali heldur Svavar því fram að hann hafi mætt til leiks angandi af áfengislykt og þar að leiðandi dæmt eins og að hann væri ölvaður.

„Við lendum í miklum mótbyr í dag og ég er brjálaður út í dómara leiks. Ég hef aldrei á ævi minni gagnrýnt dómara eftir leik en núna get ég hreinlega ekki setið á mér."

„Við leggjum mörg hundruð klukkustundir í vinnu allt tímabilið til að komast í úrslitakeppnina og síðan sendir HSÍ dómara sem kemur angandi af áfengisfýlu. Þetta er algjör skömm og hrein niðurlæging fyrir okkur."

„Hann dæmdi leikinn eins og að hann væri fullur. Þær fengu 13 vítaköst og skoruðu alls 20 mörk, við fengum bara tvö vítaköst. Þetta var langt frá því að vera sanngjarnt. Við eigum upptöku af leiknum og ég krefst þess að HSÍ skoði hana."

Bjarni Viggósson og Júlíus Sigurjónsson dæmdu leikinn í gær.

Hér má sjá viðtalið á Sport.is í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×