Fótbolti

Ársmiðasala hjá AC Milan gengur afar illa

Zlatan Ibrahimovic var aðalmaðurinn í liði AC Milan á síðustu leiktíð.
Zlatan Ibrahimovic var aðalmaðurinn í liði AC Milan á síðustu leiktíð. Nordic Photos / Getty Images
Það gengur illa að selja ársmiða hjá ítalska stórliðinu AC Milan fyrir komandi keppnistímabil. Félagið hefur selt stærstu stjörnur liðsins, Zlatan Ibrahimovic og Thiago Silva, og stuðningsmenn liðsins hafa haldið að sér höndum varðandi kaup á ársmiðu. Salan hefur ekki verið lélegri frá árinu 1986.

Samkvæmt frétt Aftonbladet í Svíþjóð hefur AC Milan selt 19.283 ársmiða það sem af er sumri en fyrsti heimaleikur liðsins er gegn Sampdoria þann 26. ágúst. Silvio Berlusconi, eigandi liðsins, hefur ekki upplifað slíkan mótbyr í þau ár sem hann hefur átt félagið.

Alessandro Nesta, Clarence Seedorf og Gennaro Gattuso eru einnig horfnir á braut frá AC Milan. Margir ársmiðahafar sem keyptu miðana strax að loknum síðasta keppnistímabili hafa ekki legið á þeirri skoðun sinni að um „vörusvik" sé að ræða. Allar helstu stjörnur liðsins hafi verið seldar eftir að þeir keyptu ársmiðana. Adriano Gallianni talsmaður AC Milan segir að félagið muni endurgreiða þeim ársmiðahöfum sem eru ósáttir við stöðu mála hjá klúbbnum.

AC Milan endaði í öðru sæti ítölsku deildarinnar, fjórum stigum á eftir meistaraliði Juventus.

Ibrahimovic og Silva voru báðir seldir til franska stórliðsins PSG, en Ibrahimovic var markahæsti leikmaður deildarinnar með 29 mörk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×