Körfubolti

Keflavík fær til sína eina bestu þriggja stiga skyttuna í sögu bandaríska háskólaboltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jessica Jenkins.
Jessica Jenkins. Mynd/Nordic Photos/Getty
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur samið við bandaríska bakvörðinn Jessica Jenkins um að leika með kvennaliði félagsins á komandi tímabili. Jessica er 22 ára bakvörður sem er nýútskrifuð úr St. Bonaventure háskólanum og lék við góðan orðstýr í NCAA háskólaboltanum.

Jessica skoraði 338 þriggja stiga körfur í 135 leikjum á háskólaferli sínum og hafa aðeins tólf konur í sögunni skorað fleiri þrista í bandaríska háskólaboltanum. Jessica skoraði yfir hundrað þrista á tveimur síðustu árum sínum með St. Bonaventure og var þá að setja niður meira en þrjá þrista að meðaltali í leik (210 í 68 leikjum).

"Við erum spennt yfir því að fá þessa beittu skyttu til liðs við okkar unga Keflavíkurlið. Við vonumst til að hún sé síðasti hlekkurinn í keðjunni sem draga mun titlana aftur til Keflavíkur, þangað sem þeir eiga heima", sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkurliðsins inn á heimasíðu Keflavíkur.

Jessica Jenkins skoraði 13,9 stig að meðaltali á lokaári sínu þar sem hún hitti úr 39,3 prósent þriggja stiga skota sinna og 95,6 prósent vítanna. St. Bonaventure kom alla leið í sextán liða úrslit NCAA-háskólaboltans en datt þá út fyrir Notre Dame sem fór síðan alla leið í úrslitaleikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×