Fótbolti

Balotelli ekki lengi að koma sér í klandur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Aðeins vika er síðan að Mario Balotelli gekk til liðs við AC Milan frá Manchester City en hann er þegar búinn að koma sér í vandræði utan vallar, ef marka má ítalska fjölmiðla.

Balotelli mun hafa rifist við lögregluþjóna fyrir utan Linate-flugvöllinn í Mílanó en þangað var Balotelli kominn til að sækja vini sína.

Samkvæmt fregnum mun hann hafa lagt ólöglega fyrir utan flugstöðina. Honum var gert að færa bílinn, sem og hann gerði. Stuttu síðar kom hann hins vegar aftur og lagði á sama stað.

Lögreglan skakkaðist því aftur í leikinn og er Balotelli sagður hafa hnakkrifist við lögregluþjónana.

AC Milan hefur reyndar neitað þessum fregnum og segir afskipti lögreglunnar af Balotelli hafa verið hluti af hefðbundnu eftirliti. Ekkert rifrildi hafi átt sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×