Körfubolti

NBA í nótt: 20 sigrar í röð hjá Miami

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Miami Heat varð í nótt fjórða liðið í sögu NBA-deildarinnar sem vinnur 20 leiki í röð á sama tímabilinu. Liðið hafði þá betur gegn Philadelphia 76ers á útivelli, 98-94.

LeBron James skoraði 27 stig fyrir Miami og Dwayne Wade var með 21 stig. Það var þó spenna í leiknum allt fram á lokamínúturnar er Miami náði að setja niður mikilvæg skot og tryggja sér sigur.

Aðeins þrjú lið höfðu náð því að vinna 20 leiki í röð á sama tímabili. Þetta voru LA Lakers  sem vann 33 leiki í röð tímabilið 1971-72, Houston Rockets (2007-8) sem vann 22 leiki í röð og Milwaukee Bucks (1970-71) sem vann 20 leiki í röð.

Washington Capitols vann einnig 20 leiki í röð árið 1948 en sú sigurganga náði yfir tvö tímabil.

Thaddeus Young var stigahæstur hjá Philadelphia með 24 stig auk þess sem hann tók fimmtán fráköst.

Atlanta vann LA Lakers, 96-92, þar sem Devin Harris skoraði sautján stig. Það var þó Ivan Johnson sem skoraði körfuna sem tryggði sínum mönnum sigurinn í nótt.

Kobe Bryant skoraði 20 stig í þriðja leikhluta og 31 stig alls, en hann nýtti aðeins ellefu af 33 skotum sínum í leiknum. Hann lenti þó illa undir lok leiksins og haltraði af velli, meiddur á ökkla.

Úrslit næturinnar:

Philadelphia - Miami 94-98

Washington - Milwaukee 106-93

Indiana - Minnesota 107-91

Boston - Toronto 112-88

Atlanta - LA Lakers 96-92

Houston - Phoenix 111-81

Oklahoma City - Utah 110-87

Sacramento - Chicago 121-79

Denver - New York 117-94

LA Clippers - Memphis 85-96

Golden State - Detroit 105-97

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×