Körfubolti

Dansa Erla og Marín í hálfleik í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marín Rós Karlsdóttir, kemur hér skilaboðum til leikmanna Keflavíkur.
Marín Rós Karlsdóttir, kemur hér skilaboðum til leikmanna Keflavíkur. Mynd/Daníel
Erla Reynisdóttir og Marín Rós Karlsdóttir, margfaldir Íslandsmeistarar með Keflavík og núverandi aðstoðarþjálfarar kvennaliðs félagsins, hafa aftur heitið á stuðningsmenn Keflavíkur fyrir stórleik kvöldsins. Nú tala þær um að dansa í hálfleik mæti yfir 500 manns á leikinn en þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Keflavíkur.

Keflavík tekur í kvöld á móti Val í hreinum úrslitaleik um sæti í úrslitaeinvígi Dominos-deild kvenna en bæði lið hafa unnið tvo leiki í undanúrslitaeinvíginu. Valskonur hafa unnið báða leikina í Keflavík en Keflavíkurkonur hafa unnið báða leikina á Hlíðarenda.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 en Keflvíkingar ætla að setja grillin í gang klukkan 17.30 og bjóða gestum að fá sér hamborgara og meðlæti fyrir leik.

„Stelpurnar voru gríðarlega ánægðar með mætinguna á síðasta leik en skv. talningu aðstoðarþjálfara kvennaliðsins, þeim Erlu Reynisdóttir og Marínu Rós Karlsdóttur, munu 499 manns hafa mætt á leikinn en þær höfðu heitið syngja Adele slagarann "someone like you" til handa stuðningsmönnum í hálfleik ef 500 manns mættu. Í þetta skiptið hafa þær ákveðið að heita á stuðningsmenn aftur og lofa "dansshowi" á miðju gólfinu í hálfleik mæti fleiri en 500 manns. Náum þessu 500 manna takmarki svo hægt verði að herma þetta show upp á stúlkurnar. Sjón ætti að verða sögu ríkari!," segir í fréttinni á heimasíðu Keflavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×