Körfubolti

LeBron James bestur í NBA í fjórða sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Mynd/NordicPhotos/Getty
Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því í nótt að LeBron James, leikmaður Miami Heat, hafi verið kosinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar í körfubolta á þessu tímabili og nú er eina spennan hvort að hann hafi fengið fullt hús eða ekki.

LeBron James er þar með aðeins fimmti leikmaðurinn í sögunni til að vinna þessi verðlaun fjórum sinnum en hinir í klúbbnum eru þeir Kareem Abdul-Jabbar, Michael Jordan, Bill Russell og Wilt Chamberlain. Ekki slæmur félagsskapur þar. Abdul-Jabbar er sá eini sem hefur eins og James náð því tvisvar sinnum að vera kosinn bestur tvö ár í röð.

LeBron James er að vinna þessi verðlaun annað árið í röð og í fjórða sinn á fimm árum en hann fær verðlaunin afhent á morgun. Það hefur enginn fengið fullt hús í þessari kosningu blaðamanna sem fjalla um NBA-deildina en sumir spá því að það gæti gerst núna.

James átti magnað tímabil með því liði sem náði langbestum árangri í deildarkeppninni. Hann var með 26,8 stig, 8,0 fráköst og 7,3 stoðsendingar að meðaltali í leik og hitti úr 56 prósent skota sinna. Miami vann 66 af 82 leikjum og þar á meðal 27 leiki í röð se er önnur lengsta sigurganga í sögu NBA-deildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×