Fótbolti

Fyrsti Íslendingaslagurinn í ítölsku deildinni í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason og Emil Hallfreðsson.
Birkir Bjarnason og Emil Hallfreðsson. Mynd/NordicPhotos/Getty
Íslendingaliðin Hellas Verona og Sampdoria mætast í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld þegar heil umferð fer fram og þetta gæti verið söguleg stund fyrir íslenskan fótbolta.

Íslenskir leikmenn hafa aldrei mæst fyrr í ítölsku úrvalsdeildinni en það er þó ekki alveg öruggt að bæði Emil og Birkir spili þennan leik í kvöld.

Emil Hallfreðsson hefur spilað 8 af 9 deildarleikjum Hellas Verona á tímabilinu til þess en hann var hinsvegar ekki í leikmannahópi liðsins á móti Inter um síðustu helgi.

Birkir Bjarnason hefur verið í byrjunarliði Sampdoria í tveimur síðustu leikjum og liðið hefur unnið þá báða. Það er því mjög líklegt að Birkir fái einnig að byrja leikinn í kvöld.

Leikurinn fer fram á Stadio Marc'Antonio Bentegodi, heimavelli Emils og félaga í Verona-borg og hefst klukkan 19.45 að íslenskum tíma.

Fyrir leikinn er Hellas Verona átta sætum og sjö stigum á undan Sampdoria í töflunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×