Fótbolti

Bæjarar rasskelltu Schalke alveg eins og Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arjen Robben skoraði þrennu í kvöld.
Arjen Robben skoraði þrennu í kvöld. Vísir/Getty
Bayern München hélt áfram sigurgöngu sinni í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld þegar liðið vann 5-1 stórsigur á Schalke 04 en þessi lið eru bæði í Meistaradeildinni. Hollendingurinn Arjen Robben skoraði þrennu í leiknum.

Schalke 04 tapaði 1-6 á móti Real Madrid í vikunni í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar og liðið fékk annan rassskell í dag.

Bæjarar voru komnir í 4-0 eftir aðeins 28 mínútna leik en sýndu gestunum miskunn eftir það og bættu ekki við fimmta markinu fyrr en þrettán mínútur voru eftir. Schalke var þá búið að minnka muninn í 4-1 en markið var sjálfsmark hjá Rafinha.

David Alaba skoraði fyrsta mark Bayern á 3. mínútu og lagði einnig upp þriðja markið fyrir Mario Mandžukić á 24. mínútu. Arjen Robben skoraði annað og fjórða markið á 15. og 28. mínútu og innsiglaði síðan þrennuna úr víti á 77. mínútu.

Bayern München er með 20 stiga forskot á Borussia Dortmund sem vann 3-0 sigur á Nürnberg fyrr í dag. Mats Hummels, Robert Lewandowski og Henrik Mkhitaryan skoruðu mörk liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×