Innlent

Þingsetning: Skýra á eftirlitshlutverk Alþingis

Linda Blöndal skrifar
Alþingi var sett í dag en forseti þingsins boðaði meðal annars nýjar siðareglur fyrir Alþingismenn. Fólk mætti fyrir utan Alþingishúsið og setti mark á þingsetningarathöfnina.

Alþingismenn, Biskup Íslands, Forseti Íslands og aðrir gestir héldu klukkan 13:30 til guðsþjónustunnar. Hópur mótmælenda, áberandi andstæðingar inngöngu í ESB, mætti fyrir utan Alþingishúsið og setti mark á þingsetningarathöfnina. Þeir létu vel í sér heyra, þótt fjöldinn væri ekki mikill en lögregla handtók einn mann sem reyndi að brjóta rúðu í Dómkirkjunni á meðan guðsþjónustu stóð.



Samstaðan sigraði segir forsetinn

Forseti Íslands minntist í ávarpi sínu á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á sjötíu ára afmæli lýðveldisins, samstöðu þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni við lýðveldisstofnun og harkalega viðbrögð erlends ríkis við útfærslu landhelginnar á sínum tíma og einnig í efnahagshruninu. Samstaða þjóðarinnar hefði haft sigur í bæði skiptin.



Skerpa eftirlitshlutverkið 

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis sagði myndu kynna á þessu þingi nýjar siðareglur.Einar nefndi einnig að haldið yrði áfram að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis með stofnun rannsóknarnefndnda en í ljósi mikils kostnaðar af þeim þurfi að skýra umboð þeirra betur og gera grunn að skipan þeirra traustari. Mörg stór mál bíða Alþingismanna í vetur og ber meðal annars hæst boðaðar breytingar stjórnarinnar á skattkerfinu en einnig má nefna breytt húsnæðiskerfi, málefni nýs Landspítala, skipulag ferðaþjónustunnar og breytingar fiskveiðistjórnunarkerfinu.



Vilhjálms Hjálmarssonar minnst

Einar K. Guðfinnsson flutti þá minningarorð um Vilhjálm Hjálmarsson, fyrrverandi þingmann Framsóknarflokksins sem lést í sumar á  hundraðasta aldursári og sat á samtals 26 löggjafarþingum. Þingmenn minntust hans með stuttri þögn.

Stefnuræða forsætisráðherra verður flutt á Alþingi næsta miðvikudagskvöld.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×