Innlent

Jón Bjarnason nýr formaður Heimssýnar

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Jón gegndi embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á árunum 2009-2011.
Jón gegndi embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á árunum 2009-2011. Vísir / Anton
Jón Bjarnason fyrrverandi ráðherra var í kvöld kjörinn formaður Heimssýnar, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Hann var áður varaformaður samtakanna en tekur nú við af Vigdísi Hauksdóttur, þingkonu Framsóknarflokksins.

Jón tók sæti á Alþingi fyrir Vinstri græna árið 1999 og sat á þingi til 2013 en undir lokin var hann utan flokka. Hann gegndi embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í Vinstristjórninni á árunum 2009-2011.

Önnur þingkona Framsóknar kemur inn í stjórnina en Jóhanna María Sigmundsdóttir var kjörinn varaformaður á aðalfundi samtakanna sem fram fór á Hótel Sögu í kvöld.

Í lok aðalfundarins var samþykkt ályktun samhljóða og er hún svohljóðandi: Aðalfundur Heimssýnar haldinn 9. október 2014 áréttar mikilvægi þess að Alþingi mæli fyrir um afturköllun umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Aðild að ESB nýtur hvorki stuðnings meirihluta þingheims né þjóðarinnar. Eina rökrétta og lýðræðislega framvinda málsins er því sú að umsóknin um aðild að ESB verði afturkölluð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×