Innlent

Vilja ekki banna krökkum á vespum að keyra hvar sem er

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Létt bifhjól, eða vespur, eru algengar í Reykjavík.
Létt bifhjól, eða vespur, eru algengar í Reykjavík. Vísir / Rósa
Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis vill ekki setja takmörk á hvaða götum börn eldri en 13 ára mega keyra á á léttum bifhjólum, sem í daglegu tali eru kallaðar vespur. Í frumvarpi sem innanríkisráðherra lagði fram um málið var gert ráð fyrir að ekki mætti keyra á slíkum hjólum á götum með yfir 50 kílómetra hámarkshraða. Nefndin vill að það ákvæði verði fellt úr frumvarpinu.

Í nefndarálitinu segir að þar sem reiðhjólum sé heimilt að aka á hvaða vegum sem er sé ekki rétt að banna léttum bifhjólum að aka um. Það sé þó ljóst að notkun bæði reiðhjóla og þessara bifhjóla á götum og vegum þarfnast sérstakrar varúðar þar sem um hægfara tæki er að ræða.

Ekki þarf neitt sérstakt próf til að fá að keyra léttustu bifhjólin en þær takmarkanir eru settar í breytingartillögunni að enginn sem sé yngri en 13 ára má stjórna vespu.

Létt bifhjól eru vélknúin ökutæki á tveimur eða þremur hjólum sem er ekki hannað til að fara hraðar en 45 kílómetra hraða á klukkustund og með sprengirými sem fer ekki yfir 50 rúmsentímetra. Sé um að ræða rafknúið hjól má samfellt hámarksafl þess ekki fara yfir 5kW. Hjólin sem flokkast í fyrsta flokk eru þau sem ekki eru hönnuð fyrir meira en 25 kílómetra hraða.

Breytingarnar voru lagðar fram á Alþingi í gær samhliða nefndaráliti um lögin. Undir álitið kvitta allir níu nefndarmennirnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×