Körfubolti

Fjarvera Tyson-Thomas kom ekki að sök

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ingunn Embla Kristínardóttir og stöllur hennar komust aftur á sigurbraut í dag.
Ingunn Embla Kristínardóttir og stöllur hennar komust aftur á sigurbraut í dag. vísir/vilhelm
Keflavík komst aftur á sigurbraut í Domino's deild kvenna í körfubolta þegar liðið lagði Hamar að velli í TM-höllinni í Keflavík, 69-54. Keflavík er enn í 2. sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliði Snæfells á meðan Hamar situr í 6. sætinu með 10 stig.

Keflavík lék án Carmen Tyson-Thomas og Birnu Valgarðsdóttur í dag en það kom ekki að sök. Bryndís Guðmundsdóttir átti sinn besta leik frá því hún sneri aftur í lið Keflavíkur en hún skoraði 20 stig og tók átta fráköst.

Sandra Lind Þrastardóttir átti einnig afbragðs leik með 19 stig, 11 fráköst, fjórar stoðsendingar og fjóra stolna bolta. Sandra hefur ekki skorað fleiri stig í deildarleik í vetur.

Þá skilaði Hallveig Jónsdóttir 15 stigum og Sara Rún Hinriksdóttir skoraði átta stig og tók sjö fráköst, þótt skotnýting hennar hafi verið slæm (21,1%).

Aðeins einu stigi munaði á liðunum eftir 1. leikhluta, 14-13, en í leikhluta númer tvö stigu heimastúlkur á bensíngjöfina og þær leiddu með átta stigum í hálfleik, 32-24.

Því forskoti náðu gestirnir úr Hveragerði aldrei að ógna að neinu ráði í seinni hálfleik. Keflavíkurstúlkur sigldu sigrinum örugglega í höfn og unnu að lokum með 15 stigum, 69-54.

Sydnei Moss stóð upp úr í liði Hamars með 19 stig og níu fráköst en Hvergerðingar skoruðu aðeins 16 inni í teig í leiknum í dag.


Tengdar fréttir

Önnur kæra á leikmann kvennaliðs Keflavíkur

Birna Valgarðsdóttir, fyrirliði kvennaliðs Keflavíkur, hefur verið kærð fyrir framferði sitt í viðureign Vals og Keflavíkur í Domino´s deild kvenna um helgina.

Ingunn Embla dæmd í tveggja leikja bann

Kvennalið Keflavíkur verður án leikstjórnanda síns Ingunnar Emblu Kristínardóttur í næstu tveimur leikjum liðsins en hún hefur verið dæmd í tveggja leikja bann. Þetta kemur fram á heimasíðu KKÍ.

Valur og KR með mikilvæga sigra

Valur og KR unnu öfluga sigra í Dominos-deild kvenna í körfubolta, en tveimur leikjum af þremur er lokið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×