Körfubolti

Væntanlegur andstæðingur Íslands átti stórleik | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ersan Ilyasova í leiknum í nótt.
Ersan Ilyasova í leiknum í nótt. Vísir/AP
Ersan Ilyasova bætti persónulegt met er hann skoraði 34 stig í sigri Milwaukee Bucks á Indiana Pacers, 111-107, í eina NBA-leik næturinnar.

Ilyasova er tyrkneskur landsliðsmaður og verður að öllu óbreyttu með liði Tyrkja á EM í körfubolta. Þar verður hann með Íslandi í riðli en Tyrkland mætir okkar mönnum í Berlín þann 10. september.

„Stundum hittir maður á svona daga,“ sagði Ilyasova sem nýtti tólf af fjórtán skotum sínum utan af velli, þar af fimm af sex utan þriggja stiga línunnar.

„Hann var frábær. Hann var ákafur, nýtt sér opin skot og sætti sig ekki við hvað sem er. Það fór nánast allt ofan í hjá honum,“ sagði þjálfarinn Jason Kidd um Ilyasova, sem var kominn með sautján stig strax í fyrsta leikhluta.

Indiana vann Washington á miðvikudagskvöld og batt þar með enda á sex leikja taphrinu liðsins. Það var því áfall fyrir liðið að tapa aftur í nótt enda í harðri samkeppni um að komast í úrslitakeppnina.

Indiana er í níunda sæti austurdeildarinnar með 31 sigur, rétt eins og Boston sem er í áttunda sætinu og á leik til góða. Miami er með 33 sigra í sjöunda sætinu en Brooklyn og Charlotte koma í næstu sætum á eftir Indiana með 30 sigra.

Milwaukee er í ágætum málum með 36 sigra í sjötta sætinu og tók mikilvægt skref í átt að tryggja sitt sæti í úrslitakeppninni með sigrinum í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×