Körfubolti

Pálína: Ef við mætum tilbúnar vinnum við Snæfell

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Þetta er skemmtilegasti tími ársins. Maður veit allavega að sumarið er að koma þegar úrslitakeppnin byrjar,“ segir Pálína Gunnlaugsdóttir, leikmaður Grindavíkur, í Dominos-deild kvenna.

Úrslitakeppnin hjá konunum hefst í kvöld og mætir Grindavík (4) Íslands- og deildarmeisturum Snæfells (1) í undanúrslitum.

„Við þurftum að hafa fyrir þessu en við unnum Valsarana og það var bara skemmtilegt,“ segir Pálína um lokaleikinn í deildinni þar sem Grindavík tryggði sig inn í úrslitakeppnina.

En er Grindavíkurliðið nógu gott til að vinna þetta svakalega öfluga lið Snæfells? „Við erum bikarmeistarar og það segir eitthvað. Við erum með fullt af góðum leikmönnum en við þurfum allar að vera með sama markmið og vera á sama stað til að vinna leiki,“ segir Pálína.

„Ég held við séum bara sjálfum okkur verstar. Þegar við mætum ekki til leiks og erum hver í sínu horni þá töpum við. Ef við mætum tilbúnar og erum samstilltar þá vinnum við Snæfell í þessari seríu.“

„Fyrst við vorum að bíta frá okkur og komast í úrslitakeppnina er eins gott að halda áfram að klífa upp stigann.“

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×