Körfubolti

Aðgerð Durant heppnaðist vel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þetta hefur verið tímabil vonbrigða hjá Kevin Durant.
Þetta hefur verið tímabil vonbrigða hjá Kevin Durant. Vísir/Getty
Kevin Durant gekkst undir aðgerð í New York í gær sem ætluð er að binda endi á baráttu hans við þrálát meiðsli sem hafa plagað hann stærstan hluta tímabilsins.

Durant, sem leikur með Oklahoma City Thunder, var valinn besti leikmaður NBA-deildarinnar í fyrra en hefur ekki spilað með liðinu síðan um miðjan febrúar.

Hann hefur verið að glíma við óþægindi síðan hann fór í aðgerð í október á fæti vegna brákaðs beins. Skrúfa þurfti beinið saman og olli skrúfan óþægindum sem varð til þess að hann fór í aðra aðgerð fyrir tæpum mánuði síðan.

Durant hóf æfingar á ný en þegar ljóst var að verkurinn var ekki farinn kom í ljós að hann þyrfti að fara í enn einu aðgerðina. Búist er við því að hann verði 4-6 mánuði að jafna sig á henni en vonir standa til að hann verði klár í slaginn þegar nýtt tímabil hefst í NBA-deildinni í haust.

Durant spilaði samtals 27 leiki á tímabilinu og er með 25,4 stig, 6,6 fráköst og 4,1 stoðsendingu að meðaltali í leik. Oklahoma City er í mikilli baráttu um sæti í úrslitakeppni vesturdeildarinnar og situr þar í áttunda sæti.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×