Íslenski boltinn

Gunnar: Ekki skref niður á við

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnar Nielsen, nýr markvörður Stjörnunnar, er byrjaður að æfa með sínu nýja félagi. Hann kom til landsins í dag og var kynntur fjölmiðlum á blaðamannafundi í dag.

Gunnar er 28 ára gamall Færeyingur en hann var keyptur frá danska félaginu BK Frem til Blackburn Rovers árið 2007. Þaðan fór hann til Manchester City tveimur árum síðar en fékk þó afar fá tækifæri hjá báðum liðum.

Hann spilaði sem lánsmaður í neðri deildunum um skamman tíma og svo með Silkeborg í Danmörku í nokkra mánuði árið 2013 áður en hann samdi við skoska liðið Motherwell. Þar var hann þar til að samningi hans var rift í síðasta mánuði.

„Svo virðist sem að fólk á Íslandi finnist það skrýtið að ég sé hingað kominn. Ég var síðast hjá Motherwell og þar gerðist ýmislegt sem ég get ekki rætt núna en þetta er vonandi gott tækifæri fyrir mig að spila aftur reglulega,“ sagði hann við Vísi í dag en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Ég hef líka séð að leikmenn sem standa sig vel hér fá tækifæri hjá erlendum liðum. Íslenskum liðum hefur líka vegnað vel í Evrópukeppnum og íslenska landsliðinu hefur líka gengið vel. Ég lít ekki á þetta sem skref aftur á bak.“

Gunnar segir að markmið sitt á Íslandi sé einfalt. „Ég er hingað kominn til að standa mig vel. Ég verð að vinna fyrir sæti mínu í liðinu eins og allir aðrir leikmenn og vonandi er þetta tækifæri sem ég næ að nýta mér.“

„Ég vil fyrst og fremst fá að spila fullt af leikjum. Vonandi tekst okkur að ná árangri, hvort sem er í deildinni eða Evrópukeppninni.“

Hann segir ótímabært að ræða sína framtíð og hvort að hann stefni á að komast aftur í stóra atvinnumannadeild.

„Ég samdi við Stjörnuna út tímabilið og ætla bara að einbeita mér að því til að byrja með. Ég hef verið að í mörg ár, verið hjá stórum félögum og glímt við erfið meiðsli. Ég veit hversu fljótt hlutirnir geta breyst.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×