Körfubolti

Meistararnir unnu í Los Angeles | Myndbönd

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Barist um boltann í leiknum í nótt.
Barist um boltann í leiknum í nótt. Vísir/Getty
San Antonio Spurs virðist til alls líklegt í úrslitakeppni NBA-deildarinnar, enn eitt árið. Liðið hafði betur gegn LA Clippers í Los Angeles í framlengdum leik í nótt, 111-107, og jafnaði þar með metin í rimmu liðanna í 1-1.

Hinn síungi Tim Duncan skoraði 28 stig og Kawhi Leonard kom næstu rmeð 23 stig fyrir ríkjandi meistara San Antonio.

Liðið endaði í sjötta sæti hinnar geysisterku vesturdeildar en Clippers því þriðja. Næstu tveir leikir fara fram í San Antonio þar sem lærisveinar Gregg Popovich gætu komið sér í góða stöðu.

Spurs missti niður tíu stiga forystu bæði í þriðja leikhluta og fjórða en náði að koma sér í framlengingu með því að Patty Mills nýtti bæði vítaskotin sín þegar átta sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Duncan tók til sinna ráða í framlengingunni og skoraði fjögur stig í röð þrátt fyrir að vera með fimm villur á bakinu. San Antonio sýndi stáltaugar eftir þetta og kláraði leikinn.

Blake Griffin náði sinni fyrstu tvöfaldri þrennu í úrslitakeppninni á ferlinum með 29 stigum, tólf fráköstum og ellefu stoðsendingum. Það dugði þó ekki til. DeAndre Jordan kom næstur með 20 stig og fimmtán fráköst.

Rimma liðanna er sú eina sem er jöfn eftir tvo leiki í 8-liða úrslitum bæði austur- og vesturdeildanna.

Atlanta og Memphis eru komin með 2-0 forystu í sínum rimmum eftir sigra á heimavelli í nótt.

Úrslit næturinnar:

Atlanta - Brooklyn 96-91 (2-0)

Memphis - Portland 97-82 (2-0)

LA Clippers - San Antonio Spurs 107-111 (1-1)

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×