Körfubolti

Helena: Mikið gleðiefni að þetta hafi tekist

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Helena nýbúin að skrifa undir samninginn í dag.
Helena nýbúin að skrifa undir samninginn í dag. vísir/valli
Besta körfuboltakona landsins, Helena Sverrisdóttir, er hæstánægð með að vera komin aftur heim til Íslands en hún skrifaði undir samning við uppeldisfélag sitt, Hauka, í hádeginu.

„Þetta hefur verið í umræðunni síðan í mars og í mínum huga lengur en það. Það er mikið gleðiefni að þetta hafi tekist," segir Helena brosmild og augljóslega ánægð með að vera komin heim.

Helena verður spilandi þjálfari hjá Haukum en hún er hluti af fyrsta þjálfaratríói á Íslandi. Ingvar Þór Guðjónsson og Andri Þór Kristinsson þjálfa kvennalið Hauka með henni og eru þau öll aðalþjálfarar.

„Ég fann eftir síðasta tímabil að ég vildi koma heim eftir síðasta tímabil. Ég er búin að vera einn þriðja af ævinni erlendis og þetta er gott í bili."

Helena var kjörinn besti leikmaður efstu deildar síðustu þrjú árin sín í deildinni þegar hún var 17, 18 og 19 ára. Auk Íslandsmeistaratitlanna tveggja vann hún einnig bikarinn 2005 og 2007.

Hún er stigahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi með 889 stig í 51 landsleik eða 17,4 stig í leik.

Síðast þegar Helena spilaði í Dominos-deildinni skoraði hún 21,2 stig að meðaltali í leik, tók 7,3 fráköst og gaf 9,8 stoðsendingar.

Nánar verður rætt við Helenu í Fréttablaðinu á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×