Körfubolti

Rose fór fyrir Chicago sem stal heimavellinum af LeBron og félögum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Chicago Bulls stal heimavallarréttinum af Cleveland Cavaliers í nótt þegar liðið vann sigur á LeBron James og félögum, 99-92, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum austurdeildar NBA í Cleveland.

Cleveland var án bæði Kevins Love, sem spilar væntanlega ekki meira á leiktíðinni eftir að vera rifinn úr axlarlið, og J.R. Smith, en Chicao nýtti sér fjarveru þeirra.

Derrick Rose, sem sneri aftur í lið Chicago rétt fyrir úrslitalakeppnina eftir langvarandi meiðsli, lítur betur og betur út. Hann var stigahæstur gestanna með 25 stig auk þess sem hann tók 5 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Pau Gasol var með tvennu í teignum upp á 21 stig og 10 fráköst og Jimmy Butler skilaði 20 stig og 6 stoðsendingum.

Kyrie Irving fór á kostum fyrir Cleveland og skoraði 30 stig, en LeBron James var einni stoðsendingu frá þrennu. Hann skoraði 19 stig, tók 15 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Tilþrif Irvings og Rose má sjá í spilaranum hér að ofan.

Chicago er 1-0 yfir í einvíginu, en liðið hefur litið vel út í úrslitakeppninni og verður ekki auðvelt fyrir Cleveland að komast í gegnum það án Love og J.R. Smith.

Jimmy Butler átti stórleik gegn LeBron James:


Los Angeles Clippers, sem vann meistara San Antonio Spurs í oddaleik í átta liða úrslitum, heldur áfram að gera góða hluti.

Clippers vann fyrsta leikinn í undanúrslitarimmu sinni gegn Houston Rockets á útivelli í nótt, 117-101, þar sem Blake Griffin fór hamförum.

Griffin var með rosalega þrennu upp á 26 stig, 14 fráköst og 13 stigsendingar, en Matt Barnes skoraði 20 stig og þeir J.J. Redick og Austin Rivers báðir 17. Þá kom Jamal Crawford sterkur inn af bekknum að vanda og skoraði 21 stig.

Stóri maðurinn Dwight Howard skoraði 22 stig fyrir Houston og tók 10 fráköst, en James Harden skoraði 20 stig og tók 12 fráköst fyrir Rockets sem missti heimavallarréttinn í fyrsta leik líkt og Cleveland. Þessi lið mætast aftur aðfaranótt fimmtudags.

Þrenna Griffins:
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×