Fótbolti

Emil með sjö stoðsendingar í síðustu níu leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luca Toni þakkar Emil Hallfreðssyni fyrir stoðsendingu.
Luca Toni þakkar Emil Hallfreðssyni fyrir stoðsendingu. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsmiðjumaðurinn Emil Hallfreðsson kom aftur inn í lið Hellas Verona eftir meiðsli og lagði upp bæði mörk liðsins um helgina.

Emil hefur verið duglegur að leggja upp mörk fyrir félaga sína að undanförnu en hann hefur gefið sjö stoðsendingar í síðustu níu leikjum sínum í ítölsku deildinni.

Emil hefur átt fjórar af þessum stoðsendingum sínum á Luca Toni en hann hefur einnig átt tvær á Juan Gómez. Emil lagði upp mark fyrir báða í gær.

Aukaspyrnur og hornspyrnur Emils eru hættulegar en fjórar af þessum sjö stoðsendingum hans í síðustu níu leikjum hafa komið beint úr föstum leikatriðum.

Emil er alls með átta stoðsendingar á tímabilinu og er kominn í hóp efstu manna í ítölsku deildinni.  Hann gaf samtals fjórar stoðsendingar á tímabilinu í fyrra.

Emil hefur alls skorað fjögur mörk og lagt upp tólf í 92 leikjum sínum í ítölsku deildinni en enginn annar íslenskur knattspyrnumaður hefur náð því.



Stoðsendingar Emils Hallfreðssonar síðan 15. febrúar:

1. Luca Toni, skot með vinstri á móti Genoa (fyrirgjöf)

2. Bosko Jankovic, skallamark á móti Roma (horn)

3. Luca Toni, skot með hægri á móti Cagliari (fyrirgjöf)

4. Juan Gómez, skallamark á móti Cagliari (aukaspyrna)

5. Luca Toni, skot með vinstri á móti Napoli (fyrirgjöf)

6. Juan Gómez, skallamark á móti Chievo (aukaspyrna)

7. Luca Toni, skot með hægri á móti Chievo (aukaspyrna)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×