Rétt tæplega 41 þúsund manns hafa skrifað nafn sitt á vefsíðuna Þjóðareign.is og skora þar með á forseta Íslands að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu „hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.“
Aðstandendur söfnunarinnar segja að þátttaka sýni fram á hina gríðarlegu undirliggjandi óánægju í samfélaginu um skipan sjávarútvegsins og að auðlind í almannaeigu, fiskveiðiheimildunum, skuli úthlutað með þeim hætti sem nú sé gert.
„Slíkt ætti að verða ríkisstjórninni hvatning til að leita raunverulegra sátta við þjóðina um hvernig standa eigi að úthlutun fiskveiðiheimilda í framtíðinni.“
Undirskriftasöfnunin hófst á verkalýðsdaginn, 1. maí en að henni standa Agnar K. Þorsteinsson, Bolli Héðinsson, Guðrún Pétursdóttir, Henný Hinz, Jón Sigurðsson, Jón Steinsson og Þorkell Helgason.
