Fótbolti

Juventus borgaði 19 milljónir evra fyrir Mandzukic

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mario Mandzukic skrifar undir í dag.
Mario Mandzukic skrifar undir í dag. mynd/juventus.com
Króatíski landsliðsmaðurinn Mario Mandzukic er genginn í raðir Ítalíumeistara Juventus, en hann skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið í dag.

Mandzukic kemur til Juventus frá Atlético Madrid, en Ítalíumeistararnir borga fyrir hann 19 milljónir evra. Sjö milljónir eru greiddar strax, aðrar sex fyrir 10. ágúst á næsta ári og síðustu sex fyrir 10. ágúst 2017.

Þá gæti kaupverðið hækkað um tvær milljónir evra vegna árangurstengdra greiðslna, en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Hinn 29 ára gamli Mandzukic skoraði tólf mörk í 28 deildarleikjum fyrir Atlético á síðustu leiktíð, en hann spilaði áður með Bayern München og og Wolfsburg.

Juventus vann ítölsku deildina fjórða árið í röð á nýliðnu tímabili og komst alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×