Íslenski boltinn

Vinnur Stjarnan fyrsta heimaleikinn í sumar?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Fagna Stjörnumenn á Samsung-vellinum í dag?
Fagna Stjörnumenn á Samsung-vellinum í dag? vísir/andri marinó
Þrír leikir fara fram í Pepsi-deild karla í dag. ÍBV heimsækir Stjörnuna klukkan fimm og klukkan sjö eru tveir leikir; þar eigast við annars vegar Fylkir og Fjölnir og hins vegar ÍA og Leiknir.

Stjarnan á möguleika á að vinna sinn fyrsta heimasigur í Pepsi-deildinni þetta sumarið þegar þeir fá ÍBV í heimsókn. Íslandsmeisturunum hefur gengið afleitlega og þeir eru í sjöunda sætinu með sextán stig. ÍBV er í því tíunda með ellefu.

Fylkir hefur náð í sjö stig af síðustu níu eftiir annars afleita byrjun, en þeir fá nágrannana í Fjölni í heimsókn. Liðin eru í fimmta og sjötta sætinu, en Fjölnir hefur ekki unnið leik síðan þann 15. júní. Fjölnismenn þyrstir í sigur.

ÍA og Leiknir mætast svo í fallbaráttuslag uppá Skipaskaga. ÍA er í níunda sætinu með þrettán stig, en þeir hafa krækt í átta stig í síðustu fimm leikjum. Leiknir er hins vegar í ellefta sæti með tíu stig og hafa ekki unnið leik síðan 26. maí.

Allir leikirnir verða í Boltavaktinni, en sjónvarpsleikurinn er á morgun. Þá fer fram leikur KR og Breiðabliks, en Pepsi-mörkin verða svo á á þriðjudaginn eftir leik Keflavíkur og FH.

Leikir dagsins:

17.00 Stjarnan - ÍBV (Samsung-völlurinn)

19.15 Fylkir - Fjölnir (Fylkisvöllur)

19.15 ÍA - Leiknir (Norðurálsvöllurinn)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×